top of page
16. júlí 2021
Eftir Jónas Sen
Fréttablaðið, Reykjavík
ENGIN HÆTTA Á SLAGSMÁLUM
Í BACH OG FYRIR
Einleikssvítur Bachs
í túlkun Geirþrúðar Önna Guðmundsdóttur

4.5/5

Norðurljós, Harpa, Reykjavík

Laugardagur 10. júlí 2021

Bach var mjög skapmikill. Þegar hann var ungur og starfaði sem kirkjuorganisti í Arnstadt þurfti hann einnig að þjálfa námsmannakór og hljómsveit. Hann hafði óbeit á því. Á einni hljómsveitaræfingunni missti hann stjórn á sér og kallaði seinheppinn fagottleikara öllum illum nöfnum. Fagottleikarinn tók því ekki þegjandi, og nokkrum dögum síðar réðst hann á Bach með barefli. Hann svaraði með því að draga fram rýting. Þetta hefði getað farið illa, en nærstaddir gátu stíað þeim í sundur.

Ég nefni þessa sögu til að sýna fram á að Bach var tilfinningavera, eitthvað sem sumum flytjendum tónlistar hans hættir til að gleyma. Fyrir bragðið verður hún stundum leiðinlega virðuleg og andlaus. Sú var ekki raunin hjá Geirþrúði Önnu Guðmundsdóttur sellóleikara. Hún flutti allar einleikssvíturnar sex á tvennum tónleikum í Hörpu um helgina.

Engin lognmolla

Á fyrri tónleikunum, sem hér um ræðir, lék hún svítur númer 1, 4 og 5. Engin lognmolla var í leik hennar. Fyrsta svítan, sem er í C-dúr, var glaðleg í meðförum hennar. Tónmyndunin var hárnákvæm, hratt fingraspil tært og meitlað, bogatæknin óaðfinnanleg. En ekki bara það. Geirþrúður spilaði af einlægni, túlkun hennar var full af tilfinningum. Hún tók áhættur, það voru engar málamiðlanir í leik hennar. Túlkunin einkenndist af snerpu og skaphita, sannfærandi flæði og músíkölsku innsæi. Smæstu blæbrigði voru einstaklega fallega mótuð, en meginlínurnar skýrar. Ef Geirþrúður hefði verið í hljómsveit Bachs, hefði hann örugglega hælt henni í hástert. Ekki hefði verið nein hætta á slagsmálum.

Mismunandi dansar

Næst á dagskrá var svíta nr. 4, sem er í erfiðri tóntegund fyrir sellóleikara, Es-dúr. Engu að síður lék hún í höndunum á Geirþrúði. Sömu sögu var að segja um flutninginn á fimmtu svítunni sem var síðust á dagskránni. Báðar svíturnar voru gríðarlega dramatískar, þrungnar sterkum andstæðum, óheftar og sannar. Þetta var mögnuð upplifun.  

Kaflarnir bera nöfn mismunandi dansa, enda er hver svíta hugsuð sem hálfgert ball. Prelúdían í upphafi, nokkurs konar forspil, er það þegar ballsveitin hitar upp á undan ballinu, inngangurinn að skemmtuninni. Hinir kaflarnir heita allemande, courante, sarabanda, o.s.frv. Hver dans hefur sín megineinkenni, þannig er courante hálfgerð hlaup, en sarabanda hægur og þokkafullur. Sarabandan í hverri svítu er innhverfasti þátturinn, og sumir hafa kallað hann hjarta verksins. Túlkun Geirþrúðar á saraböndunum var djúphugul og andrík, og aldrei tilgerðarleg. Courante kaflarnir voru hins vegar skemmtilega ærslafengnir; leikurinn bæði spennuþrunginn og lifandi. Þetta var eftirminnileg stund.  

Niðurstaða: 

Einkar vandaðir og líflegir tónleikar.

https://jonas-sen.com/2021/07/16/engin-haetta-a-slagsmalum/

Full stærð.jpg
Ef Geirþrúður hefði verið í hljómsveit Bachs, hefði hann örugglega hælt henni í hástert
bottom of page